Chamonix og Annecy

Eftir ævintýranlegt ferðalag þar sem flugfélagið Play missti mörg ferðastig komumst við til Brussel og í lestina til Lúxemborg. Daginn eftir keyrðum við af stað til Chamonix, en skiptum ferðalaginu upp í tvo leggi. Fyrstu nóttina gistum á tjaldstæðinu Camping Island Chambod í franskri sveit, klukkutíma keyrslu frá Lyon. Á degi tvö keyrðum við upp í Chamonix, komum okkur fyrir á flottu tjaldstæði og hjóluðum niður í bæ í skoðunarferð. Dagarnir í Chamonix fóru að mestu leiti í að hlaupa og ganga í fjöllunum, skoða bæinn og borða ís. Frönsk tjaldstæði bjóða yfirleitt upp á brauðpöntun sem er afhent á morgnanna og við vorum dugleg að nýta okkur það. Á kvöldin var rigning og þrumuveður og þá var notalegt inni í húsbíl. Á myndunum má sjá Albert uppi í fjöllunum á leið að skoða Mer de Glace jökulinn og lestarteinana sem liggja upp að jöklinum.

Á fjórða degi keyrðum við niður í Annecy, en við völdum „the sceenic route“, sem var mjög falleg, en ekki fyrir bílveika. Rétt fyrir ofan Annecy er flottur kastali sem við fórum í franska skoðunarferð um. Í kastalanum fæddist Saint Bernard, verndari ferðafólks um alpana árið 1090. Hann var líka sagður hafa veitt innblástur að kastala Þyrnirósar, en Walt Disney gisti þarna á ferðalagi. Í Annecy lentum við í umferðarteppu í úrhellisdembu og tók langan tíma að komast á tjaldstæði. Þegar við vorum loksins búin að leggja fórum við að leita að mat og enduðum á veitingastað sem bauð okkur að sitja úti. Þau gáfu okkur sæti nánast úti á bílastæði og þá opnaðist himinninn aftur. Það var mjög skondið að sitja þarna rennandiblaut og endaði með að við skottuðumst inn til þeirra aftur og báðum um að fá að vera inni í hlýjunni. Daginn eftir var fallegt veður og við fórum í bæinn í skoðunarferð. Það tók bara þrjár tilraunir að komast í strætó, hann tók bara nákvæmar 1,50 Evrur og bauð enga skiptimynt. Annecy er mjög fallegur bær, neðarlega í ölpunum sem stendur við stórt vatn, Lake Annecy. Í kringum vatnið liggur 40 km malbikaður hjólastígur og mikið siglt og synt í vatninu á sumrin. Þegar við vorum búin að rölta um bæinn (gamli bærinn mjög flottur) tókum við strætóinn tilbaka, skiptum yfir í sundfötin og tókum smá sundsprett í vatninu. Daginn eftir keyrðum við svo til baka til Lúxembourg þar sem síðasta deginum var eytt.

Hér sést Gígja við Þyrnirósarkastalann.

Og hér sést Albert í rigningunni.

Takk fyrir lánið á Fjallabensa! Kveðja, Gígja og Albert